Li|iana on Ice: júlí 2005

fimmtudagur, júlí 28, 2005 

Sólböð og svefnlyf

Jæja ég er víst enn á lífi, ykkur eflaust til ómældrar hamingju.
Ég er nýlega komin heim úr kvikmyndahúsi, hvar ég gerði þau reginmistök að sjá Sin City - asninn ég að taka mark á dómum annara á bíómyndum! Það er búið að lofa rassgatið upp á þessari mynd út um allt og ég ákvað að vera einu sinni soldið eins og allir hinir og prófa!
Ég hef ALDREI verið eins hættulega nálægt því að sofna í bíó og akkúrat í kvöld... og ég var ekki einu sinni syfjuð!

Ef einhver vill hengja sig í mína ómótstæðilegu meiningu þá gef ég henni hálfa stjörnu af fimm mögulegum, og það einvörðungu vegna þess hvað manni líður eins og maður hafi verið að skoða hasarteiknimyndasögu ókominn niður af sýrutrippi og bara tapast inn í hana!
Hmmm... þegar ég hugsa málið þá er það að villast inn í teiknimyndabók nokkuð sem ég hef aldrei haft nokkurn áhuga á að gera og tilhugsunin um það á örugglega eftir að valda mér mikilli sálarangist næstu daga! Best að taka bara hálfu stjörnuna til baka þá!
Núll stjörnur á þig, leiðinlega mynd! *ULL* Njaaa... á ég ekki að klína einum stjörnuarmi kannski á hana út af því hvað Clive Owen er mikið hunk-a-meat í henni! Ok, ég geri það og þar við situr. Ég hefði svo verið sáttari hefði ég notað 2-fyrir-1-í-boði-Kolbrúnar á einhverja froðu á borð við Mr. and Mrs. Smith, fjárinn forði mér!

Það merkilegasta við þessa lífs(ó)reynslu er að Tony var mun fjær því að sofna en ég, og það þrátt fyrir að vera að glíma við alvarleg svefnvandamál þessa dagana. Nú er ég í svo verklegu "fríi" og þá hef ég þann háttinn á að vera ekkert að druslast í háttinn fyrr en þetta um 2-3 leitið á nóttunni og hann á eitthvað bágt með það að ná að sofna á kvöldin án mín sér við hlið og þegar hann loksins sofnar er hann hrökkvandi upp í tíma og ótíma, valdandi mér hjartsláttartruflunum í hvert sinn - þ.e. ef ég er þá komin inn... Jæja út af þessu er hann óttalega tuskulegur alltaf í vinnunni... ef hann yfir höfuð nær að pumpa sig upp úr rúminu á morgnana og koma sér þangað á réttum tíma!
Svo kemur hann heim og er ómannlega leiðinlegur og fýldur, sem er kannski ekkert furðulegt vegna þess hversu illa fyrir kallaður sökum svefnleysis hann er, og þess að það virðist ekki vera neinn réttur kantur á rúminu okkar sem hann getur farið framúr á!
Ég er á mínum verstu stundum hættulega nærri því að berja hann í augað með marmarakertastjaka, svo ótrúlega getur þetta grey pirrað mig. En ég hef til allrar hamingju ekki gert það ennþá, hef náð að halda mér frá þess háttar ofbeldi með að kyrja í búddistastíl "þúertekkertbúinnaðsofaogégelskaþigeinsogþúert, þúertekkertbúinnaðsofaogégelskaþigeinsogþúert, þúertekkertbúinnaðsofaogégelska..."
Svo hann druslaðist í dag til læknis til að ræða þetta vandamál sitt (ekki það að ég vilji lemja hann með skrautmunum, heldur að hann getur ekki sofið almennilega) og doksi fixaði honum eitthvað dóp sem á að fá hann til að sofna á guðlegum tíma hvort sem hann vill eða ekki, og veita værari nætursvefn þegar Óli Lokbrá hefur loks náð að grafa hann í einhverju draumadufti eða hvað það nú er sem hann er rótandi alltaf út um allt...

Jæja annars er þetta bara allt voða næs og rólegt þessa dagana, ég rembist við að missa ekki tökin á tilverunni í þessu aðgerðarleysi hérna, sérstaklega í dag eftir að mosinn minn er farinn í bústað með ömmu sinni... Ég er hálf rugluð barasta að vera ekki að svara í dyrasímann á átján mínútna fresti allan daginn! Gerði heiðarlega tilraun í dag til að ná mér í lit á kroppinn og lá úti í sólbaði í hæfilega langan tíma til að verða eins og sparigrís á litinn en ekki nógu lengi til að verða eins og gömul leðurtaska (takk Linda fyrir þennan skemmtilega frasa)... Hvenær ætla ég að sætta mig við það að ég VERÐ EKKI BRÚÚÚÚÚN!!!! Ég þarf að fara að meðtaka þann fróðleik einn góðan veðurdag, og það vonandi áður en ég fer að þjást af húðkrabba á hæsta stigi!! Ég er bara orðin svo þreytt á að þurfa nánast að fá fólk til að setja upp logsuðuhjálma þegar það er nálægt mér til að blindast ekki af hvítleika mínum, og langar að verða hraustlega útitekin!
Allavega er þetta "renna-saman-við-hvíta-lakið-mitt-og-týnast-í-bólförum" -lúkk ekki alveg það sem ég er mest hrifin af! Ég vil hins vegar ekki líta út eins og zebrahestur heldur og forðast því allt sem getur kallast brúnkukrem/klútar/sprey/klefar eins og Stórubólu! Kannski ég ætti bara að gera magninnkaupasamning við einhverja snyrtivöruheildsölu og kaupa meik í lítravís?

Ég fór í píupartí á laugardagskvöldið hjá Röggubeibí, það var rooosalega gaman! Já, sko það var mjög gaman þegar okkur tókst að rata gegnum völundarhúsið Hafnarfjörð til að finna híbýli hennar! Það var sullað í alls konar guðaveigum og rabbað og sungið og trallað og bara allt óskaplega skemmtilegt! Sérstaklega vegna þess að alltaf þegar umræður hér og hvar urðu of óbærilegar gat ég alltaf fundið einhverja rugludalla til að ræða við um getnaðarlimi, sem eru -let's face it- mun skemmtilegra umræðu en Jesús og lærisneiðarnar eða á hvaða hátt okkur kvenfólkinu hefur tekist að kreista mannverur úr píkunum á okkkur! Bara sorrí, verð að segja það! Semsagt, ég og the gellz og Jesús og lærisneiðarnar og píkurnar okkar allra að ógleymdum ROLF skemmtu sér konunglega (ætla ég að vona) og ég komst nokkurn veginn ósködduð heim til mín um nóttina. Þó ekki fyrr en ég hafði vökvað Reykjanesbrautina rækilega með magainnihaldinu mínu (takk sadistaleigubílstjórafífl). Ég átti líka nokkuð hressilegar samræður við Gústa (Gustavsberg fyrir lengiaðfattafólk) eftir að heim var komið, en ég vil meina að þær samræður hafi verið það sem bjargaði mér frá óbærilegri þynnku á sunnudaginn. Ég vaknaði í fínasta formi og langaði ekki einu sinni í sveittan mat, sem er alltaf öruggasta merkið um það að ég hef farið yfir strikið í söngvatnsinntöku!

Já svona er lífið hjá mér um þesar mundir, um helgina ætlum við Tony að rúlla að Úlfljótsvatni og eyða verslunarmannahelginni hjá Lindu og hennar óektamaka, ég á örugglega eftir að sakna Gústa þar! Góðar stundir allesammen!

föstudagur, júlí 22, 2005 

Væmni hf

Ef þú þarft ekki mikið til að finna til velgju yfir væmni, þá skaltu bara fara og skoða eitthvað annað núna, ok?


Kolbrún er hjá okkur um þessar mundir, hana vantaði tímabundinn samastað, og hvað gerir maður ekki fyrir familíuna?
Við erum ekki með neitt aukaherbergi hér, þannig að hún fær að brúka herbergið hans Atla Þorgeirs og hann - jú hann er bara uppí hjá okkur á nóttunni. Voða næs og kósí allt saman. Það er alveg óskaplega hlýlegt að koma inn á kvöldin til að fara að sofa og þessi unglingur (að því er mér finnst) liggur í rúminu miðju og breiðir úr sér til allra átta. Til að komast sjálfur fyrir í rúminu (sem er nota bene 193*203 cm) þá þarf fyrst að standa í stóraðgerðum til að koma barninu fyrir almennilega í miðjunni svo við getum rúllað okkar rössum uppí líka.
Það er með ólíkindum hvað það virðast allt í einu vaxa á hann margir útlimir akkúrat á þessari stundu! Það er sama hvað maður færir til af þessu dóti, alltaf er hendi þar og fótleggur þar sem er enn fyrir! En þetta hefst nú yfirleitt allt að lokum og við getum komið okkur fyrir. Þá tekur nú ekki betra við.
Hann elskulegasti sonur minn er nefnilega þeirri náttúru gæddur að hann er svo að segja aldrei kyrr, ekki einu sinni í svefni! Hann talar og talar allan liðlangan daginn og það tekur heldur engan endi þótt hann sé sofnaður, öðru nær! Í gærkvöldi fengum við t.d. að heyra heldur óskiljanlega sögu um einhvern stóran strák á mótorhjóli með slöngu í hendinni og tvo japanska varðhunda - eða það held ég í það minnsta að hafi verið inntakið í frásögninni! Það er gólað einhver ósköp og barist um og slegist og síðan hleypur hann í burtu á ógnarhraða Á BAKINU Á MÉR! Ég fann litlar lappir trampa á mér af fullum krafti og ég hélt um stund að ég myndi fá hryggsúluna upp um munninn á mér. Til allrar hamingju slapp það nú, og hún hélt sér nokkurn veginn á sínum stað, en hugsanlega er hún frekar bláleit í dag...

Það tekur með öðrum orðum örlítið lengri tíma að sofna þessa dagana, og þeim hamagangi, sem maður er öllu vanari að eigi sér stað í rúminu, hefur verið skipt út fyrir svona leikfimiæfingar. En það merkilega við allt þetta er það að þegar hann tekur sér pásu í látunum og róast niður milli draumtímabila þá sný ég mér við og horfi á hann, og hann vefur öllum þessum útlimum sínum utan um mig og kjassar mig alla eins og malandi kettlingur. Ég góni á þetta undraverk mitt og fyllist tilfinningu sem er svo yfirþyrmandi að um stund held ég að ég ætli bara að fara að skæla. Að horfa á litla, fullkomna nebbann hans, á löngu augnahárin og mjúkar kinnarnar vekur einhverns konar verk djúpt niðri í brjóstholinu á mér, næstum því aftur í baki (þó ekki í verkjandi hryggnum) og ég þarf að draga andann djúpt og bara njóta þess að elska þetta kraftaverk. Alltaf skal maður svo hugsa; á morgun ætla ég ekkert að tuða, á morgun verða engar skammir, á morgun ætla ég bara að knúsa þig allan daginn!

Svo kemur dagurinn og hann tætir myndaalbúm úr hillunum og skilur eftir dreifð eins og rekavið um alla íbúð, hann æðir í skápana og hendir kexi á gólfið og labbar yfir það, hann þverneitar að þvo sér um hendurnar, kemur inn með grasmaðka og hrellir mig, laumast með vatnsbyssu inn í svefnerbergi og bleytir sængina mína, suðar um ís og nammi, gerir mig gráhærða!! Og ég berst um á hæl og hnakka við að muna eftir því að í kvöld fæ ég kannski aftur svona knús og áminningu um þessa yndislegu tilfinningu og ég hlakka til!

þriðjudagur, júlí 19, 2005 

Jamm já

Er að fara að sofa núna... merkilegt að ég hafi lafað uppistandandi þetta lengi þó!
Var í marineringu í sófanum í kvöld með liðinu mínu. Þeir sem ekki vita hvað "marinering" er þá er það þegar maður situr bara í sófanum og horfir á sjónvarpið og gúffar í sig nammi.
Ég trítlaði á leiguna og sótti eitthvað til að marinera yfir og mundi þá allt í einu að ég átti alltaf eftir að sjá Ray og ákvað að bæta snarlega úr því. Segi ekki annað en að þetta er snilldarmynd sem þið ættuð sem flest að reyna að kíkja á við tækifæri. Jebb, segjum það þá! Nú er ég farin að kúra.

mánudagur, júlí 18, 2005 

Brupps

Ööööghhgrrrll ég er svoo mygluð!
Ekki nóg með að ég upplifði nokkurs konar þynnkudag í gær, heldur gat ég aldrei sofnað í nótt, það var ekki fyrr en um sex sem ég byrjaði að dotta og vaknaði svo aftur um hálfellefu. Ég get svo svarið það að skrokkurinn er verr farinn eftir þetta rugl heldur en sullið sem ég hellti í mig á laugardagskvöldið.

Annars var það skrall obbossla skemmtilegt, my gellz eru náttúrulega alltaf sömu snillingarnir og gaman að tjútta með þeim... Því miður þurfti ég að láta af fögnuðinum allt of snemma, en ég vona bara að mér takist að bæta það upp innan tíðar. Ég daðraði víst einhver ósköp við einhvern tjallahóp og það var bara gaman, en verstur fjandi hvað ég verð alltaf daðurgjörn þegar ég hef verið að fikta við söngvatnið. Jæja það var svosem ekki alvarlegt, bara létt gaman. Hehe en alveg hefði ég verið til í að mjólka þá belju aðeins lengur! Muahaha... (Já Tony elskan, ég veit að þú lest þetta!)

Jamm svo hitti ég víst einhvern Letta þegar ég var um það bil að skríða upp í bílinn á leiðinni heim og vildi fyrir alla muni að hann kenndi mér að telja á lettnesku og það gerði hann samviskusamlega blessaður. Verstur fjandi að ég man EKKERT af því sem hann sagði! Svo ég verð víst að fresta Lettlandstúrnum um sinn!

Annars er lítið að frétta, lillimann er hjá pabba sínum þessa dagana svo ég lifi bara saurlifnaði hérna á meðan - ferlegt að láta af móðurstarfinu svona í nokkra daga, það fer bara allt í klessu! Þegar ég segi "saurlifnaði" þá meina ég ekki að ég stundi hér villtar kynlífsorgíur dag hvern með grískum börnum og láti kallinn minn sódómisera frá mér allt vit! Nei, ég meina bara ósköp einfaldlega að það er allt í skít. Það vantar einhvern veginn alveg hvatninguna til að þrífa gólfin hérna þegar ég veit að það er enginn pjakkur sem vill fyrir alla muni liggja á þeim. Svo ég sleppi því. Já. Reyndar gerði ég heiðarlega tilraun í dag til að moka soldið skítnum til en ég gerði mér víst þann grikk í nótt að sofa ekki almennilega svo ég hringsnýst einhvern veginn bara um sjálfa mig og geri spor í skítinn í staðinn fyrir að fjarlægja hann. Já kannski á morgun, hver veit?

Nú ætla ég að skella mér út í labbitúr og kannski reyna að verða mér úti um ís í brauðformi eða eitthvað... allt til að flýja drulluna!

laugardagur, júlí 16, 2005 

Havin' me some fun tonite!

Ég var rosalega sniðug í gær og gúglaði mér upp lista yfir bestu rokklög sjötta og sjöunda áratugarins. Svo opnaði ég LimeWire-ið mitt og sótti allt sem mig vantaði af þessum lista!

Nú er ég svooo að skemmta mér hérna með þessari schnilldartónlist! Sorglegt að svona tónlist skuli ekki vera framleidd lengur... *hristihausinn*

Goodness gracious great balls of fire!!!

föstudagur, júlí 15, 2005 

Djöfulsins fikt!

Já ég var eitthvað að eiga við bloggið mitt í gær og skemmileggjaði eitthvað... Sem olli því að ég sat við tölvuna langt framyfir siðsamlegan háttatíma ungmeyja og var að reyna að laga það. Ég held að mér hafi tekist það nokkurn veginn en ég er samt ekki 100% viss. Mér sýnist enn vera eitthvað kjaftæði ef maður skoðar síðuna í Internet Explorer (sem er að sjálfsögðu bara RUSL), svo ég mæli eindregið með því að allir stökkvi nú til og nái sér í Mozilla Firefox, þ.e.a.s. ef þið eruð ekki búin að því. Í eldrebba sést síðan nefnilega alveg eins og hún á að vera og ekkert bull! Ég smellti inn svona hnappi hérna til hægri til að einfalda ykkur málið, smellið bara á hann og reddið málinu!

Já annars er ekki mikið að frétta, ég sit hérna sveitt við tölvuna að senda inn atvinnuumsóknir út um hvippinn og hvappinn, er að vonast til að ég nái að finna mér eitthvað að gera með haustinu.

Over and out!

fimmtudagur, júlí 14, 2005 

Myndafærsla

Jæja gott fólk, ég settist loksins niður og ákvað að koma með almennilega færslu um hvað hefur gengið á hjá mér undanfarið. Vandamálið var bara að ég átti erfitt með að sortera það fyrir sjálfri mér, hvað þá byrja að skrifa um það! Svo ég datt í það að skoða myndirnar mínar til að sjá hvað gerðist hvenær og kannski rifja upp eitthvað skemmtilegt til að tala um. Og þá fékk ég þá ofursnjöllu hugmynd að deila bara með ykkur úrvali af myndum og láta vita jafnóðum hvað er í gangi á hverri mynd. Sniðugt, ekki satt? Ok byrjum þá!

Fyrsta myndin er af Atla Þorgeiri í Fífuselinu rétt áður en við fluttum. Hann fékk að fara með stjörnuljós út á svalirnar (í glampandi sólskini nota bene) og kveðja þannig heimilið áður en við fluttum. Þetta var í lok apríl.


Hún elskulegasta Sæunnin mín giftist honum Begga sínum þann 14. maí. Ég fékk þann heiður að sjá um hárið hennar og ég held að mér hafi bara tekist nokkuð vel upp með það þótt ég segi sjálf frá. Kolbrún var hirðmeiköppdama og útkoman sést á þessari mynd. Þetta gekk allt saman óskaplega fallega fyrir sig, brúðhjónin mundu bæði eftir að segja "já" á réttum stöðum, Dalla (systir brúðarinnar), Linda (systir brúðarinnar og mín) og ég sjálf gauluðum eitthvað undir athöfninni og í veislunni og ég held að við höfum komist nokkuð skammlaust frá því bara. Ég held að hún Sæunn sé fegursta brúður sem Ísland hefur alið!


Þriðja myndin er af mér. Jú þetta er víst ég! Mér fannst þetta svo skondin mynd, af því að Atli Þorgeir tók hana af mér á Hvítasunnudag (15.maí) og á henni sést nokkuð greinilega hvernig hann sér mömmu sína víst allt of oft: hangandi í tölvunni! Þetta er semsagt silfurmolinn sem hann Tony gaf mér í jólagjöf núna síðast og ef vel er að gáð þá má sjá glitta í hausinn á mér þarna upp fyrir hann!


Jæja, mynd númer fjögur. Þetta erum nokkar yndislegar gellur sem komu í heimsókn til mín að kvöldi hvítasunnudags og þömbuðu hér ýmislegt áfengt og skemmtu sér með mér áður en við héldum svo í bæinn á eitthvað rall. *knús* á ykkur beibs! (Elín, Árný og Ragga semsagt)


Jæja júní kom. Og þeir sem voru viðstaddir júní á Íslandi vita að júní var ósköp indæll mánuður veðurfarslega séð. Ég fór í sumarbústað rétt hjá Hveragerði ásamt nokkrum vel völdum fjölskyldumeðlimum og við Kolbrún systir tókum m.a. nett myndaflipp. Meðfylgjandi mynd sýnir dæmigerða grettu. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessa seríu, nema hvað ég ætla að segja ykkur að ég þurfti að skipta um nærbuxur þegar myndatökunni var lokið. Jamm.Daginn áður en ég kom heim úr bústaðnum afrekaði Tony það að klessukeyra hana Júlíu okkar (bílinn). Ég er nú ekki með mynd af því en mér fannst ég mega til með að skjóta því að að hann gerði það! Grrrrr... Reyndar er búið að gera við Júlíu núna með ærnum tilkostnaði og hún er við hestaheilsu, en þetta er náttúrulega nokkuð sem verður að taka með í svona viðburðaupptalningu, er það ekki?

Daginn eftir að ég kom heim úr bústaðnum, sem var 17. júní, kom tengdapabbi í heimsókn til okkar í allt of stutta helgarferð. Hann náði að festa okkur Krummapakkið á þessa mynd sem hér fylgir. Það var frábært veður allan tímann sem hann var hjá okkur og við gerðum helling af okkur. Það hefði reyndar verið skemmtilegra að hafa hann svolítið lengur, en við stefnum bara á það næst í staðinn.


Eins og ég sagði þá gerðum við ýmislegt á meðan kallinn var hérna, en m.a. fórum við á víkingahátíð í Hafnarfirði. Þar sáum við þennan snarklikkaða unga mann troða eldi í sig - og ofan í buxurnar sínar og fleira skemmtilegt reyndar.


Hérna er svo höfðinginn sjálfur, myndin er tekin við Gullfoss, hvert þeir fóru Tony og hann. Hæ hæ tengdó!


Jahá! Þá er sko komið að stórviðburði sumarsins! -Allavega héldum við að það yrði stórviðburður sumarsins, en það kom á daginn að þetta var bara flopp. Við fórum með Atla Þorgeir í Smáralindina þ. 2. júlí til að sjá átrúnaðargoðin hans; norsku apakettina í Wig Wam! Ég var alvarlega farin að sjá eftir því á tímabili að hafa ekki haft með aukasett af buxum fyrir drenginn, því ég var hrædd um að hann myndi pissa í sig af spenningi! Hann var búinn að mála sig allan og skreyta í glysrokkarastíl og var alveg að missa sig þessi elska. Í Smáralindina mættu eitthvað rúmlega 3000 manns til að berja glimmergaurana augum og það átti eftir að reynast örlagaríkt. Atli týndist nefnilega í þvögunni og var pikkaður upp af einhverjum öryggisverði sem parkeraði honum svo bara niðri á þjónustuborði, svo ljósið mitt litla fékk aldrei að sjá svo mikið sem glimmerkorn af goðunum sínum! Mig langaði að gráta þegar allt var afstaðið yfir því hvernig þetta fór allt saman, en drengurinn bar sig vel og sagði bara: "Mér líkar ekkert við svona mikinn hávaða hvort eð er!" Hann var samt dúndurfúll, það veit ég! Og þess vegna ætla ég að reyna mitt besta til að bæta honum þetta upp með að fara með hann á alvöru Wig Wam "ungdómstónleika" sem mér skilst að verði haldnir hér í ágúst! ROCK ON!


Hérna eru þeir svo, dáðadrengirnir sjálfir. Ekki veit ég hvurn fjárann maður var að reyna að baksa þetta með myndavélina þarna, það sást ekkert nema hausar á liðinu sem fyllti Vetrargarðinn svo langt sem augað eygði! En það tókst þó að ná svona smá (ó)mynd. Rauða klessan fyrir miðri mynd er Glam, söngvari sveitarinnar.


Jæja þá. Um kvöldið fór ég svo með góðum hópi á Gauk á Stöng á alvöru Wig Wam tónleika! Júhú! Ég var búin að hlakka til minnst eins mikið og drengurinn minn að sjá þá (eins og sést víst í eldri færslu hér á síðunni) og skundaði því glöð í bragði á blessaða tónleikana. Það fór samt ekki betur en svo að einhver fjandans villimaður skallaði mig í nefið af því að honum þótti ég ekki nógu liðleg við að hleypa honum fram fyrir mig í þvögunni sem myndaðist við sviðið! Sveitin var samt alveg frábær og ég skemmti mér þrusuvel þetta kvöld ef þessi skalli er ekki talinn með! Á myndinni sem fylgir má nokkurn veginn (með slatta af ímyndunarafli) greina hvernig ég var útlítandi eftir umræddan skalla. Ég fékk ágætasta mar á nebbann, en slapp samt að ég held furðu vel miðað við hvað mér þótti höggið hart. Passaðu þig villimaður, ég veit hvernig þú lítur út og ef ég sé þig aftur þá skaltu fá að finna fyrir einhverju örlítið meiru en hártogi!! GARGH!


Eftir þetta ævintýri allt saman var haldið í Búðardalinn til settsins. Við Atli vorum þar í viku í góðu yfirlæti og létum okkur bara líða vel á hótel mömmu/ömmu. Stráksi plataði náttúrulega afa sinn til að gera allan fjárann fyrir sig, en þessi öðlingsmaður sem ég á fyrir föður er þeim kostum gæddur að geta ómögulega sagt nei við þetta barn mitt. En það merkilegasta sem pabbi gerði fyrir molann minn var að hann gerði sér lítið fyrir og kenndi honum að hjóla! Þessi mynd er tekin sömu mínútuna og strákurinn hjólaði einn og óstuddur í fyrsta skiptið, og þykir mér það nokkuð merkilegt að eiga mynd af því afreki! Þetta er 5. júlí.


Nokkrum dögum síðar skelltum við okkur á Leifshátíð í Haukadal í Dölum. Þetta er árleg hátíð og ég get með sóma sagt að ég hafi mætt á hana í hvert einasta skipti af þeim 5 sem hún hefur nú verið haldin! Þetta er alltaf alveg hreint óskaplega gaman og ég held að ég fari ekkert að hætta að mæta á hana úr þessu. Heyrið þið það, Eiríksstaðanefnd! Þið losnið aldrei við mig! Múhahahahaaaa! Myndin er af Atla á laugardeginum, eitthvað að sniglast í kringum víkingana.


Á þessari hátíð hittir maður alltaf fullt af skemmtilegu fólki, en ég verð samt að segja að þessi gaur er einn sá athyglisverðasti sem ég hef dottið um á henni. Þetta er Frakki að nafni Gilles, sem á það að sinni helstu ástríðu í lífinu að heimsækja fornar söguslóðir. Hann var búið að dreyma um að koma til Íslands lengi vel og loksins látið verða af því, og var svo heppinn að lenda í Haukadalnum akkúrat sömu helgi og hátíðin var haldin. Ég sýndi náttúrulega af mér alkunna íslenska gestrisni og hellti ótæpilega af áfengi í náungann, nokkuð sem ég held ekki að hann hafi verið neitt óskaplega ósáttur við svosem...


Hérna erum við svo á hátíðinni, Unnur, Sandra og ég. Ég held ekki að við höfum verið orðnar neitt yfirmáta ölvaðar þegar þessi mynd er tekin, en það kom síðar, bílíf jú mí!


Erna og Jónína alltaf sætar! Þær fengu m.a.s. að fara upp á svið og syngja með Ragga Bjarna *andköf* og eru þær rétt nýstignar niður af sviðinu þegar þessi mynd er tekin. Mikið er ég ánægð að eiga vinkonur sem hafa sungið með Ragga Bjarna! I'm starstruck! *meiri andköf og svo fliss*


Tony var þarna náttúrulega líka, ég held að hann skemmti sér yfirleitt betur en ég á þessari hátíð, þótt ótrúlegt megi virðast. Hann er svo fjári mannblendinn þessi elska og á svo létt með að næla í fólk til að spjalla við... Reyndar var eiginlega engin spurning um að hann yrði að tala við þennan ágæta mann, því þeir eru víst landar. -Já eða það héldum við allavega til að byrja með. Hann heitir Andy þessi gaur og hefur búið í Noregi í töttögöfemmár og þeir skemmtu sér konunglega saman við að syngja norsk ættjarðarlög og drekka Jack Daniels og sitthvað fleira misgirnilegt! *æl* Konan hans, hún Monika er líka þrælskemmtileg skvísa og rabbaði ég margt merkilegt við hana á meðan þeir voru einhvers staðar að væta kverkarnar í söngvatni og syngja... sem var eiginlega allt kvöldið barasta!


Eitthvert þurfti nú allt þetta söngvatn að fara. Og það þekkja þeir sem söngvatn hafa bragðað að oft vill svo fara að söngvatnið virðist allt safnast fyrir inni í höfðinu á manni eða koma sér illa fyrir í maganum, nokkuð sem maður ótrúlegt nokk finnur yfirleitt ekki fyrir fyrr en daginn eftir að það er innbyrt. Og það var að sjálfsögðu tilfellið með hann Tony minn. Þessi mynd er tekin af honum á sunnudagskvöldið, eftir að hann hafði legið í skjálftarykkjum allan daginn:


Atli hafði hins vegar ekkert söngvatn fengið, bara kókómjólk og Sprite Zero og hann var því súpersprækur og fann ekkert fyrir neinum skjálftarykkjum af neinu tagi, nema kannski einna helst rokkrykkjum af bestu gerð. Hann er nú búinn að ákveða það að verða rokkstjarna og er strax byrjaður að æfa töffarataktana eins og sést á þessari mynd.


Jæja þá erum við komin inn í nútímann barasta, ekkert meira hef ég til að sýna ykkur í bili. Nú hafið þið fengið að frétta upp og ofan af afrekum okkar lúðulakanna síðustu mánuði og þá get ég kannski farið að blogga í friði um daglega lífið án þess að vera alltaf með samviskubit yfir að hafa skilið svona stóran part útundan.

Sjáumst!

föstudagur, júlí 08, 2005 

Block?

Er ég svona óborganlega leiðinleg?
Af 96 aðilum sem ég er með á msn listanum mínum er ENGINN online! Hvort er málið það að allir eru farnir að sofa klukkan eitt á aðfaranótt laugardags eða að allir séu bara búnir að blocka mig?

Mér leiðist!

...samt ekki nóg til að blogga einhver býsn, enda sit ég í heimilistölvu foreldranna og það heyrist svo bölvanlega hátt í lyklaborðinu hérna að ég er hrædd um að ef ég myndi pikka hérna öllu lengur þá vekji ég fólkið á Sunnubrautinni! -Sem FYI er eins langt í burtu frá mér og er hægt að vera innanbæjar í Búðardal!

föstudagur, júlí 01, 2005 

Í ögn betra skapi en síðast...

...en ekki mjög mikið samt. Netið er enn hundleiðinlegt við mig og reynir mikið á andlegan styrk minn og hæfileika til að hemja "henda-tölvu-í-vegg" -tilhneyginguna mína.
Aðalástæða þess að ég er svolítið upplitsdjarfari er sú að eftir fíflaganginn í Tony á Júlíu (Júlía er bíllinn okkar sem Tony tókst að klessukeyra) er hún loks orðin betri en ný. Já ég er sem sagt hætt að þurfa að labba hérna um hverfið eins og hitt hyskið!

Nei heyrðu, nú er ég að ljúga! Auðvitað er mér skítsama um þennan bjánalega bíl þegar mun meiri skemmtilegheit eru í aðsigi: Yours truly er að fara að sjá WIG WAM - ekki einu sinni, heldur TVISVAR á morgun! ÍÍÍÍÍHAAAAA! ROCK ON!
Ég hlakka svo til að ég á mjög bágt með mig, er að spila Wig Wam alveg í botni hérna og við Atli erum að tapa okkur í rokkaraskap! Ég fer með hann í Smáralindina á morgun klukkan hálffimm, hvar þeir ætla að taka nokkur lög fyrir æsta íslenska aðdáendur sína á barnsaldri og sennilega árita plötuna sína og fleira skemmtilegt.Um kvöldið ætla ég svo að skella mér ásamt Tony, Árnýju og Röggu á Gaukinn, þar sem þessir dáðadrengir ætla að troða upp. Ég get ekki annað sagt en að ég sé að deyja úr spenningi! Ég hreinlega er með stjörnukomplexa yfir þessum náungum! Og þið megið alveg flissa og gera grín að mér fyrir það, mér er alveg sama! Ég nenni ekki að hafa áhyggjur af því að ykkur finnist ég nölli, ég veit alveg að ég er það - hef verið það frá blautu barnsbeini og er hætt að nenna að berjast gegn því! Þar hafið þið það! *hnuss*

ROCK OOOON!!! *tunganalvegniðuráhöku*

...


Ímeill


Get Firefox!