Li|iana on Ice: september 2004

fimmtudagur, september 23, 2004 

Fyrsta brúkið

Jæja, við þurftum skafa af bílrúðunum í morgun, þær voru útúrhrímaðar! Ætli veturinn sé að koma? Það er nú kannski ekki svo skrýtið að það verði allt svona hélað, það er heiðskírt og ííííískalt þar af leiðandi!

Sonur minn er hæstánægður með „fríið“ sitt og er ekki að hafa miklar áhyggjur af því hvort grunnskólakennarar semji eða ekki. Ég vildi nú vera ábyrgðarfull mamma og útskýrði fullkomlega fyrir honum ástæður þess að þetta verkfall brast á. Það tók u.þ.b. eina kvöldstund og eftir það þá stendur guttinn heils hugar að baki kennurum og segir að þeir eigi sko bara að vera þrjóskir og ekki gefast upp! -Smá óskhyggja kannski í gangi, en hver veit?

Þessir jólasveinar ætla víst að funda í dag, ég verð nú að játa að ég hef litla trú á að þeim takist að fallast í einhverja sáttafaðma, svo að öllum líkindum þá verðum við karlinn ein í kotinu eftir morgundaginn, því afsprengið fer vestur á land! -Svolítið blendar tilfinningar þar, maður er sáttur að fá að taka í brúk fleiri íverustaði íbúðarinnar sem mögulega fundarstaði fyrir fullorðinsleiki, en aftur á móti er maður svolítið lítill í sér að fara að tapa sjónar af stráknum þetta lengi!
Vonum að allt gangi upp.

miðvikudagur, september 22, 2004 

Bænin (21.9.'04)

Maður einn lá á bæn eitt kvöldið og bað heitt og innilega til Guðs:

"Kæri Guð, ég er trúfast lamb þitt! Ég er orðinn svo þreyttur á þessari sífelldu endalausu vinnu og vildi óska þess eins að ég gæti skipt við konuna mína!!!
Konur þurfa ekkert að gera nema dunda sér heima og snýta börnunum af og til! Gerðu það, kæri Guð,leyfðu mér að skipta!!!"

Maðurinn var góður og kristinn maður sem bað Guð ekki oft bóna líka þessari. Það kom honum því ekki mikið á óvart þegar hann vaknaði fyrir allar aldir morguninn eftir og uppgötvaði að Guð hafði bænheyrt hann. Hann var himinlifandi, allt þar til hann kom fram á klósett og rakst á skilaboð frá himnaföðurnum skrifuðum eldskrift í klósettpappírinn. Þar stóð:

"Ég hef ákveðið að uppfylla ósk þína. Nú skaltu drífa þig að mála þig óaðfinnanlega og leggja hárið, vera komin fram í eldhús kl hálfsjö, hita kaffi, vekja manninn þinn og börnin, útbúa morgunverð fyrir fjölskylduna sem og nesti fyrir þá sem það þurfa. Því næst skaltu reka á eftir öllum að koma sér í fötin og koma öllum út í bíl. Þú skalt keyra manninn þinn í vinnuna og börnin í leikskóla og skóla og fara svo heim með yngsta barnið og skipta á bleijunni þess.
Þú skalt svo vaska upp eftir morgunmatinn, setja í þvottavél, brjóta saman af snúrunum frá því í gær, strauja það sem þarf að strauja, skipta aftur um bleiju á barninu, gefa því brjóst búa um rúmin, taka úr þvottavélinni, hengja upp á snúru, rétta barninu snuðið sitt, setja aftur í þvottavélina, láta barnið leggja sig og nota tímann meðan það sefur til að ryksuga, skúra, þurrka af og skrúbba klósettið. Þegar barnið vaknar skaltu skipta um bleiju á því, skipta líka um föt á því af því að það mun hafa kúkað sig allt út og gefa því síðan aftur brjóst. Þá verður kominn tími til að sækja barn á leikskólann. Gerðu það og komdu með það heim. Skiptu um föt á eldra barninu því það kom gauðaskítugt úr leikskólanum. Taktu úr þvottavélinni, hengdu upp, taktu niður þurran þvott og settu aftur í vélina. Brjóttu saman þvott. Gefðu eldra barninu eitthvað að borða og ruggaðu yngra barninu á meðan. Þá verður komið að því að sækja elsta barnið í skólann. Gerðu það og komdu með það heim. Láttu það taka til við heimalærdóminn og hafðu yfirumsjón með því á meðan þú skiptir á yngsta barninu, klæðir miðbarnið í útiskóna sína og gerir innkaupalista. Þegar elsta barnið hefur lokið heimalærdóminum kallar þú miðbarnið inn, gefur börnunum vel samsettan og heilsusamlegan kaffitíma og kemur því næst öllum í útiföt, því nú áttu að fara að versla. Gerðu innkaupin án þess að garga á börnin þín eða beita þau harkalegu ofbeldi, því þau munu gera hvað þau geta til að ergja þig. Komdu vörunum, börnunum og sjálfum þér að kassanum og borgaðu. Því miður þá muntu komast að því að færslan verður ekki heimiluð á kortið þitt, svo þú verður að biðja afgreiðsludömuna að hinkra á meðan þú hringir í bankann og leysir flækjuna. Á meðan þú bíður eftir að komast í samband við þjónustuver bankans þá muntu taka eftir því að yngsta barnið er búið að kúka og það byrjar að öskra. Þér mun takast að fá yfirdráttarheimildina framlengda í gegnum símann, greiða fyrir vörurnar og fara með þær út í bíl. Þá skaltu fara með börnin heim í snarhasti og skipta á því yngsta. Þú munt ekki hafa mikinn tíma, því innan skamms verðurðu að sækja manninn þinn í vinnuna, svo vertu snögg!! Nú skaltu sækja manninn þinn og passa þig að verða ekki of sein. Og mundu enn og aftur að það er ekki börnunum þínum að kenna að umferðin er svona brjáluð, svo ekki láta það bitna á þeim að það pirri þig!
Þegar þú hefur sótt manninn þinn þá skaltu taka til við að útbúa kvöldmatinn. Þegar allir hafa borðað er kominn tími til að koma miðbarninu í háttinn og skipta enn og aftur á yngsta barninu. Þú þarft jafnframt að þrefa við elsta barnið, því það á eftir að biðja þig um að fá að gista hjá félaga sínum, sem þú vilt ekki að það geri, því þú veist að það er mikið áfengisvandamál á því heimili og þar fyrir utan þá þarf krakkinn að mæta í skólann á morgun!
Nuðaðu í manninum þínum í hálftíma til að fá hann til að lagfæra dyrakarminn sem brotnar þegar barnið skellir hurðinni. Þegar hann hefur gert það þá skaltu skikka elsta barnið í rúmið, skipta á yngsta barninu, setja það í náttfötin, gefa því brjóst og koma því í svefn. Þegar því er lokið þá skaltu taka úr vélinni, hengja upp úr henni, taka niður þurran þvott og setja aftur í vélina. Brjóttu saman þvottinn. Nú skaltu vaska upp og ganga frá eftir kvöldmatinn. Nú muntu anda léttar, því ró verður komin yfir heimilið. En bíddu hæg. Nú þarft þú að þóknast manninum þínum í rúminu, hvort heldur þú vilt það eður ei. Ef þú verður heppin (sem ég veit að þú verður ekki, því ég er Guð) þá tekur það bara stutta stund. Þegar hann er sofnaður eftir gleðistundina þá skaltu fara fram á bað og skola þig vel og þvo þér á meðan þú bíður eftir að þvottavélin klári að þvo. Þegar hún er búin skaltu hengja upp úr vélinni, taka niður af snúrunni það sem er orðið þurrt og brjóta það saman, setja aftur í vélina og gera svo skólatösku elsta barnsins klára fyrir morgundaginn, gera tilbúin föt fyrir yngri börnin og klára að ganga frá eftir daginn. Gangi þér vel."

Maðurinn (konan) sat agndofa á klósettinu en tók svo til við verkin. Hann komst örþreyttur gegnum daginn og sofnaði áður en hann náði að leggja höfuðið á koddann um kvöldið, gersamlega búinn á taugum og með aum kynfæri eftir kynlífið. Hann náði tveimur þriggja tíma svefnlotum milli þess sem yngsta barnið vaknaði og vildi drekka og hans fyrsta verk þegar hann vaknaði eldsnemma morguninn eftir var að falla á kné á baðherberginu og grátbiðja Guð um að fá að verða karlmaður aftur.

Eldskriftin birtist samstundis á klósettpappírnum:

"Kæri sonur. Ég er stoltur af því hvað þér gekk vel í gær og ég vildi svo gjarnan verða við bón þinni í annað sinn. En því miður þá er mér það ekki mögulegt. Þú verður að bíða í um það bil níu mánuði, því maðurinn þinn gerði þig víst ófríska í gær!"

þriðjudagur, september 14, 2004 

brrrr,,,, (14.9.'04)

Það er hrollur í mér þrátt fyrir góða veðrið. Kannski það sé vegna þess að það er kalt? Jamm, það er ískalt úti. En ég vil frekar fá svona veður en helvítis rigningarmadnessið sem er búið að vera síðustu daga/vikur.
Helgin gekk nokkuð vel bara, það var svosem ekkert rosalegt havarí í gangi hjá mér en mér tókst þó að fara út að tjútta bæði föstudags- og laugardagskvöld og kalla ég það gott. Ég var reyndar stungin af af bílstjóranum mínum á laugardagskvöldið, því hann ákvað að hrynja í það (heldur verklega) og var því ekki ökuhæfur. En það splittar nú ekki öllu, ég fékk pening frá honum til að henda í leigubílstjórann sem rúllaði mér svo heim fyrir rest.

Þessi leigubílstjóri var nú ekki alveg að ganga á öllum, hann var stórfurðulegur ef þið viljið mitt álit... Leigubílstjórar eiga það til að tala um alla heima og geima óháð því hvort maður svarar þeim eða ekki, og þetta var svo sannarlega einn af þeim! Hann malaði og malaði um umferðina og gatnakerfið og nýju brýrnar út um allt og hvar þyrftu nú að koma ný gatnamót og hvar væru slæmar holur og hvar hann kviði fyrir að keyra í vetur vegna hálku og hvað ljósin hér eða þar eru nú leiðinlega skipulögð og hvernig umferðarmenningin væru nú hérna og já, í rauninni bara velflest það sem getur ært óstöðugan, nei, stöðugan (!!) á góðum degi, hvað þá klukkan hálffjögur að morgni sunnudags!
Ég var svo gáfuð að mér fannst ég verða að leggja orð í belg, mestmegnis til að þagga niður í honum í smástund. Svo ég fór að tjá mig um þessa helvítis unglingsstráka sem ekki ættu einu sinni að fá leyfi til að stýra Playstation stýripinnunum sínum, hvað þá meira! Ég tjáði þessum ágæta manni reiði mína í garð þeirra sem stunduðu glannaakstur um allar trissur og legðu líf mitt og limi í hættu með stórhættulegum framúrakstri og fleira í þeim dúr. Yady-yady-yady, þið skiljið.
Þið verðið að skilja, mig langaði mun frekar að hlusta á mína eigin hljómfögru rödd en malið í þessum 174 ára atvinnubílstjóra...
Haldið þið ekki að þessi perla hrynji út úr blessuðum karlinum:
"Já, þetta er nú bara allt konunum að kenna."
Ég var svolitla stund að kveikja á því sem hann hafði sagt, en sama hvað ég reyndi þá fékk ég ekki botninn í þessa staðhæfingu!
"Ég var nú að tala um unglingsstráka"
sagði ég, svona til að reyna að leiðrétta þennan misskilning. Nei nei, kemur þá ekki á daginn að hann hafði ekki misskilið neitt:
"Já, en eru það ekki kerlingarnar sem ala þetta upp?"

!!!

Ég er nú langt frá því sem getur talist góð og gild rauðsokka, það fer yfirleitt lítið í taugakerfið hjá mér að einhver dissi kellingar, en þetta fannst mér svo úti á grasi að ég vissi varla hvað ég hét lengur!
Ég var í góða stund að skafa hökuna upp úr útúrældri gúmmímottunni í gólfinu en náði svo sönsum að einhverju leiti og hreytti í hann:
"Jahá! Hvað með barnaníðinga og morðingja og nauðgara og ræningja og dópista og hryðjuverkamenn og sjálfstæðisfólk, ætlarðu ekki bara að segja að þetta pakk sé allt kolbrjáluðum kerlingum að kenna af því að þær ólu það upp svona??!!??"
-Hann var nú ekki alveg til í að gúddera þessa kenningu og baðst afsökunar og grjóthélt síðan kjafti alla leiðina heim.

Hann var nú ekki meiri kvenhatari en svo að hann gaf mér afslátt af fargjaldinu, sennilega bara sem friðþægingu fyrir að hafa komið mér í svona rasandi ástand rétt fyrir svefninn...

föstudagur, september 10, 2004 

Föstudagur til fjár (10.9.'04)

Eða er það ekki þannig?
Reikningsnúmerið mitt er 123-45-6789 og kennitalan 300281-1239.

Ég kann vel við föstudaga. Föstudagar eru næs. Ég þarf ekki að mæta fyrr en kl 10, svo ég get bara dúllað mér hérna heima í rólegheitum. Svo er ég búin í skólanum kl hálftólf og helgin bara komin! Ég er að spá í að fara að versla mér eitthvað sætt á kroppinn minn, svona bara upp á djókið. Alltaf gaman að spreða péníngum!

__________________________________________

Ég komst að því í gær að ég er snillingur.
Ég átti að reikna einhverja geðveiki af heimadæmum fyrir stærðfræðina í dag og eins og alþjóð veit þá hef ég nú sjaldan talist til þeirra sem eru góðir í þessari grein. Ég reif upp stærðfræðibókina upp úr kl 8 í gærkvöldi af því að ég ætlaði nú heldur betur að taka mér tíma í þetta. Horfði yfir síðurnar með hryllingi, þetta var svo ofvaxið mínum skilningi!
Nema hvað, ég byrjaði að reikna, og reiknaði og reiknaði og reiknaði og reiknaði allt rétt! Hikstalaust! Ég segi og skrifa: Ég er snillingur! Ég held ekki að annar eins ofurheili hafi gengið á þessari jörð síðan Albert var og hét! Ég var búin um kl 9 og hafði þá tíma til að horfa á sjónvarpið!! Júhú!

__________________________________________

Ég fæ næturgest um helgina. Vín-kona mín úr sveitinni ætlar að fá að gista hjá mér milli drykkjutarna og það verður án efa mjög fróðlegt og skemmtilegt. Og ég er ekki frá því að ég fái mér í aðra tána, henni til samlætis. Svo er nú aldrei að vita hvort maður skellir sér ekki bara út á galeiðuna, og í þetta skiptið skal ákvörðunarstaðurinn ekki vera yfirfullur af sveittum leðurhommum! Og hana nú!

__________________________________________

Tékka inn með fréttir síðar. Góðar stundir.

fimmtudagur, september 09, 2004 

HRMPH! (9.9.'04)

Æi, ég nenni ekki að fara að sofa. Ég er ferlega sybbin og lúin en ég bara nenni ekki öllu veseninu sem fylgir þessum bölvuðu háttatímum! Maður þarf að standa upp, sem er náttúrulega forsendan fyrir því að geta farið inn og lagst út af... það þarf að ganga frá síðasta draslinu svo maður detti ekki um það þegar maður staulast fram úr bælinu í fyrramálið, pissa, þvo sér og bursta tennurnar, flétta hárið, klæða sig í svefnkjól (af því að ég deili nú rúminu okkar með ungum herramanni úr skólanum), trítla ALLA LEIÐ inn í herbergi, slökkva ljósin og fara að lúra.
Þetta er bara of flókið! Sérstaklega kannski út af því að ég sé fram á að þurfa að fara á fætur löngu áður en mig langar til þess...

Jæja, gleðin yfir heimkomu karlsins næstkomandi sunnudag fékk snöggan dauðdaga, hann verður nefnilega viku lengur. En skítt með það, hann verður á 100% álagi svo ég fæ ríkan kall eftir eina og hálfa viku! 0 Ætli maður reyni ekki að þola þetta, þetta er nú einu sinni síðasta skiptið sem ég þarf að húka hérna ein og yfirgefin meðan hann "slappar af" í vinnunni, langt í burtu frá þessu daglega leiðindaamstri hérna heima. Gott á hann!!

Ég get samt ekki sagt að ég hafi beinlínis verið kona einsömul hérna síðustu vikurnar, elskan hún mamma kom í bæinn til að vera mér innan handar með guttann, því ég er jú komin á fullt í skólanum og ég var ekkert sérstaklega hrifin af hugmyndinni um að gera úr honum fimm ára lyklabarn! Fokk ðe frístundaheimili!
Ég hreinlega veit ekki hvað í veröldinni ég myndi gera ef ég nyti ekki hjálpar þessara yndislegu foreldra minna með allt mögulegt og ómögulegt! Þau eiga yfirgengilegar þakkir skildar - og fá þær hér með. -Hmmm.. veit nú ekkert hvort þau lesa þetta blogg, en það er allt annað mál! Ef þau geta ekki drattast til að hafa uppi á blogginu mínu þá eiga þau kannski ekki eins miklar þakkir skildar og ég kannski hélt...

Annars var mér formlega boðið í dag í skírn litla pjakkusar, ég er svo yfir mig hamingjusöm yfir því að ég þurfti að kaupa mér dömubindi undir gleðivatnið sem ég missti! Mér finnst þetta svo mikill heiður og svo æðislegt og frábært að ég fæ tár í augun! Liggaliggalái! Nú verð ég bara að æfa mig í að líta mjög spekingslega út þegar nafnið hans verður tilkynnt, til að geta sagt: Tja.. jú, maður vissi þetta nú alveg, það var nú alveg hreint augljóst að þetta nafn yrði fyrir valinu... og bla bla bla. Það er alltaf gaman að láta líta út fyrir að maður sé skyggn!

Þetta er nú orðin þvílíka grýtan hjá mér að ég ætla að láta þessu lokið í bili, kannski klára kókglasið mitt og reyna svo að hífa minn super-sized-ass upp af stólnum áður en klukkan dettur í eitt...

Góðar stundir.

fimmtudagur, september 02, 2004 

Stöööð! (2.9.'04)

Fimmdudagar eru góðir dagar. Bara skemmtilegir tímar í skólanum, laaangt hlé frá hálftíu til hálftvö, stutt í föstudaginn með aðeins tveim skemmtilegum tímum, kvöldið brill í imbanum, og ekki mikið að læra út af því að - jú, bara tveir léttir og skemmtilegir tímar á föstudögum... Helgin alveg að bresta á og þó nokkuð léttara yfir manni en á mánudögum.
Dagurinn í dag er reyndar ekki alveg eins skemmtilegur og hann gæti verið, ég er að tapa mér í stressi yfir þessu frístundaheimilisdæmi hjá honum Atla mínum, ég er ekki alveg að sjá fyrir mér hvernig ég á að redda þessu þangað til hann kemst að, en ég nenni ekki að fara í fýlu yfir því og kalla það barasta seinni tíma (næstu viku) vandamál.

Á sunnudaginn er bara vika þangað til kallinn kemur heim í síðasta sinn! Múhahaha... meina ekki í síðasta síðasta sinn eins og hann eigi bara aldrei eftir að koma heim aftur, neeeei, heldur síðasta sinn sem hann kemur heim af sjónum og þá þarf ég aldrei aftur að vera stúlkan sem starir á hafið grátklökk og einmana, kynsvelt og súr. Vegna þess að kallinn verður jú alltaf heima. Það væri nær lagi að segja að ég muni verða stúlkan sem reynir að henda honum í sjóinn eftir einhvern tíma...

Kolbrún er komin í kór, ég er ekki lítið öfundsjúk út í hana og langar að skella mér líka. En ætli ég bíði ekki með þannig ákvarðanatöku þangað til kallinn er kominn heim og farinn að fara í taugarnar á mér. Þá gæti verið gott að eiga eitt kvöld í viku þar sem maður getur sloppið soldið út og ekki spillir það fyrir að maður gæti kannski fengið að gaula svolítið í hópi hrukkudýra.